Ljóðvarnargarðar standa við Fjarðarstræti á Ísafirði og samanstanda af ljóðum á fimm tungumálum, eftir fimm skáld sem búsett eru á svæðinu.  Öll ljóðin eru samin sumarið 2025 út frá ljóði Heiðrúnar Ólafsdóttur Við búum öll við sjó. 
Ljóðvarnargarðar eru unnir með styrk úr Styrktarsjóði Hafna Ísafjarðarbæjar.

Við búum öll við sjó

Allir sem búa við sjó
vita að maður stingur
sér ekki til sunds
með fullan maga
Ég bý við sjó
Við búum öll við sjó
Ég erfði net, ég erfð
bát, erfði fát
Ég erfði árar, erfði ára
Ég erfði stígvél og galla
ausu og öngul
Erfði dall
Erfði kvóta. Ég erfði
hyldýpi og ótta


Allir sem búa við sjó
vita að maður kveikir
ekki í sígarettu
með kertaloga
Ég bý við sjó
Við búum öll við sjó
Ég erfði ógn, ég erfði
hræðslu, erfði ugg
Ég erfði innræti, erfði læti
Ég erfði kuta og kompás
með fastsettri stefnu
Ég erfði flóð
fjöru, talíu og spotta

Allir sem búa við sjó
vita að hænur
eru sólgnar í þara
Ég bý við sjó
Við búum öll við sjó
Ég erfði söl
ég erfði þang, erfði hungur
Ég erfði krækling
salt og sand
Ég erfði krabba og fló
Egg, fjaðrir, bringu
og silkibleika húfu
Ég erfði matarkistu
sem ég get ekki opnað

Email

heidruno@gmail.com

#ljodvarnargardar

Create Your Own Website With Webador